Borgar.net

— Go straight to page navigation

26. apríl 2008

Hver á opinber gögn?

Kunningi minn, Hjalli, hefur verið að taka ögn af óverðskuldaðri gagnrýni fyrir að þurfa að framfylgja lögum um höfundarétt fyrir stofnun sem hann starfar fyrir. Hann er í þeirri óþægilegri stöðu því að á sama tíma og hann neyðist til þess að passa það að höfundarréttarvarin opinber gögn séu ekki afrituð, er hann í dag einnig ein háværasta rödd þess hóps sem vill sjá hið opinbera skapa sér opna stefnu að opinberum gögnum.

Eins er það kaldhæðnislegt að þeir sem hafa mestar áhyggjur af móðurmálinu, íslenskufræðingar, skuli vera skuldbundnir til þess að liggja á þeim gögnum sem best geta nýst í sköpun tóla eins og ókeypis villuleitarforrita, og þar með hlúð að tungumálinu.

Þetta á ekkert bara við um Íslenska Orðabók. Ég er viss um að margir Íslendingar kynnu að meta það að Google-maps kynni hnit og kennileiti í helstu borgum á Íslandi, eða hefði í það minnsta kortin inni svo notendur geti sjálfir sett inn kennileiti. Google verða auðvitað að fá gögnin einhver staðar frá, en þau, eins og Orðabók Háskólans eru lokuð, læst, og háð erfiðum notkunar samningum og/eða gjaldi.

Ég þekki það af eigin raun hversu ergilegt það er að komast ekki í svona gögn. Rímorðabókin mín líður fyrir það að engin nothæf frjáls íslensk orðabók er til.

Það er kannski heppilegt að þjóðskrá, bifreiðaskrá, og þessháttar persónutengd gögn séu ekki öllum gefin. En fyrir öll önnur gögn sem ekki koma einstaklingum við, eða eru ekki bundin lagafjötrum, er það beinlínis skylda Ríkissins að gefa almenningi sem greiðastan aðgang að.

Það rýrir hvorki gögnin né viðkomandi stofnanir að slík afrit séu gefin. Þvert á móti eykur það vegsemd og gildi stofnanna að vera í góðu sambandi við hópa og einstaklinga sem fást við nýsköpun. Það er vegna þess að notkun á svona gögnum varpar ljósi á villur eða gloppur í þeim, sem geta gengið sem lagfæringar eða tilkynningar til baka til stofnanna.

Það er algjör óþarfi að margir aðilar séu að keppa um framleiðslu á gagnagrunnum sem hið opinbera á nú þegar. Því hagnast allir á svona fyrirkomulagi, ef ekki peningalega, þá hreinlega í vinnu eða tímasparnaði. Í eins litlu samfélagi og okkar þá getur það skipt sköpum. Samanber hvernig á meðan Mál og Menning gefur út þægilegar kiljur af íslendinga sögum, þarf Námsgagnasofnun ekki að standa í því.

Það er, að ég tel, engin raunveruleg ástæða fyrir því að þessum gögnum er "haldið frá" almenningi. Það er einfaldlega engin mótuð stefna til. Ég veit fyrir víst að Orðabók Háskólans er alvarlega svelt tæknimönnum, og sennilega fé. Líkast til á það við um flestar þessar stofnanir. Ef tekin væri yfirlýst opin stefna á ríkisgögn þá mætti hugsa sér að þeir sem hagsmuni sjá í, eða hafa af, því að nota gögnin geti komið að því að hjálpa viðkomandi stofnunum við að koma þeim í útgáfu.

Það geta flestir, ef ekki allir, verið sammála um að þetta er góð hugmynd. En hvernig á að koma slíkri stefnu á? Einhverjir meðlimir RGLUG og Wikipedia hafa stofnað FSFÍ, Félag um stafrænt frelsi á Íslandi. Það hljómar eins og þrýstihópurinn sem vill taka á þessu máli. Það gæti verið góð hugmynd að flykkja liði undir hatt FSFÍ?

Ég bendi á að Forsætisráðuneytið er þegar búið að láta kanna Opin hugbúnað og komast að þeirri niðurstöðu að hann geti verið góður valkostur sem "skili sparnaði og auknu rekstraröryggi". Ég get því miður ekki skoðað hvað lögbundni staðallinn Íslenskar kröfur um upplýsingatækni hefur um málið að segja, því að hann er læstur bak við 4.353 kr.

Af samskiptum mínum við Ríkið og sveitarfélög hefur það verið ánægjulega áberandi að þau leitast við að nota opna staðla. En það er eins með Opinn hugbúnað og Gleðibankann, það dugir ekki að taka bara út, það þarf líka að leggja inn.

Published: 26. apríl 2008. Tagged: , .