Borgar.net

— Go straight to page navigation

03. ágúst 2007

Frábær tímasetning

Mér er mikið skemmt að komast að því að Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn kom fram í sjónvarpinu með kenningar sínar (eða lögreglunar, fyrst að hann kom þarna fram einkennisklæddur) um áhrif fulls tungls á menn og dýr. Þessu var rúllað á sama tíma og ég var að birta mína færslu.

Ég hefði sennilega misst af þessu ef ég hefði ekki rambað inn á vef Óla Gneista fyrir hreina tilviljun. Fann þetta svo á veftíví Vísis. Reyndar var ég nánast dáinn úr leiðindum yfir löngu árlegu þrasi yfir birtingu skattaálagningarskráa áður en ég komst í konfektið.

Það sem Geir, og aðrir lögreglumenn, eru að upplifa eru ekki áhrif tunglsins á hegðun. Heldur er þetta hugsanavilla sem orsakast af því að heilinn í okkur er hreinlega ekki til þess gerður að vinna hlutlaust við greiningu á stóru gagnasafni. Við erum með innbyggðar aðferðir til þess að stytta okkur leið að niðurstöðu í flestum aðstæðum. Þetta virkar mjög vel, en bregst þó samt stundum við furðu einfaldar aðstæður.

Geir Jón er hreint frábær lögreglumaður og megum vera mjög ánægð með hann. Hann hefur gert lögregluna töluvert mannlegri og er ekkert feiminn við að vera afalegur í sjónvarpinu og játa það (og sýna) að lögreglumenn eru manneskjur. Sem hann reyndar gerði á sama tíma á hinni stöðinni.

Það er kannski eins gott að þetta er þvættingur. Því að ef fólk yrði í raun ofbeldisfyllra á fullu tungli, yrðu mannlegu lögreglumennirnir okkar það þá ekki líka?

Published: 03. ágúst 2007. Tagged: , .