Borgar.net

— Go straight to page navigation

29. nóvember 2005

Öryrkjun á Íslandi - Sjúkratrygginar

Sem framhald á ræðu minni um Tryggingastofnun ríkisins vil ég aðeins minnast á Tryggingafélög. Ég þykist nokkuð viss um að ef eitthvað svindl er í gangi einhverstaðar þá er það hjá Tryggingafélögunum.

Ég vinn hjá vátryggingarfélagi. Þetta hefur gefið mér örlitla innsýn inn í hvernig hægt er að verða ríkur á tryggingarsvikum. Það er hellings vesen, en það er sennilega hægt. Tryggingafélög hafa takmarkað svigrúm til þess að verjast gegn svikum.

Íhugið þetta dæmi: Maður lendir í léttum árekstri, honum tekst að láta lækna skrifa upp á einhverja smá örorku, hann fullyrðir að hann sé ónýtur í hálsi eða baki, og hann vill fá 3-4 milljónir út úr sjúkratryggingunni sinni. Segjum að það sé hverjum manni augljóst að þetta getur ekki staðist.

Hvað gerir tryggingafélagið?

  1. Það hafnar kröfunni og þarf að berjast fyrir rétti (kostnaður 6-8 milljónir). Þetta endurspeglast í hækkuðum iðgjöldum til viðskiptavina.

  2. Það borgar þetta bara (kostnaður 3-4 milljónir) og hækkar iðgjöld til viðskiptavina?

Það sem ógeðfeldast er að það er engin skortur á læknum og lögfræðingum sem finnst bara allt í lagi að taka þátt í þessu. Vegna þess að það "skaðar engan", það tapar enginn nema tryggingafélagið og það er hvort sem er bara blóðsuga.

Rangt! Það tapa nefnilega allir. Meira að segja sá sem náði að svíkja út góða summu út félaginu. Viðkomandi þarf í framtíðinni, eins og aðrir, að borga hærri iðgjöld. Á endnum kemur þetta út á eitt, jú þú fékkst 4 millur í vasan núna - en þetta eru peningar sem ganga upp í hækkunina á iðgjöldunum þínum þegar til lengri tíma er litið.

Það er ekki eins og tryggingafélögin fái að sitja í leðurstól í Kastljósinu og segja okkur frá sinni hlið málsins. Nei, allir vita að tryggingafélög eru ógeðfeldar fégráðugar stofnanir sem eru ekki nema stigsmun frá því að vera spilavíti eða banki.

Það skiptir engu máli hvort að þetta eða hitt tryggingafélag er fégráðugt bákn eða ekki, þau eru misjöfn eins og bankarnir. Við skiptum þó við þau vegna þess að það er skynsamlegt, og oft lagaleg skylda okkar, að hafa það öryggisnet sem þau bjóða.

Ekki endilega að ég sé að reyna að verja heiður tryggingafélaga hérna. Það er samt spurning hvort fólk almennt gerir sér grein fyrir því hvað fáir geta í raun skemmt mikið kerfið fyrir okkur hinum.

Published: 29. nóvember 2005. Tagged: .