Borgar.net

— Go straight to page navigation

03. september 2003

Tollurinn og Pósturinn

Í tilefni dagsins ætla ég að rifja upp nokkuð sem gerðist fyrir nokkrum árum þegar að ég var ennþá í Playstation mod-chip bransanum.

Ég hef nú alltaf verið þannig gerður að ég framkvæmi bara það sem mér dettur í hug (svona innan skynsamlegra marka) og læt allt efasemdatal eins og vind um eyru þjóta. Þannig var það líka þegar að ég fékk mér Playstation, sem í dag heitir víst PSX One, og ákvað að ég þyrfti að geta afritað leiki fyrir hana. Þá var bara farið í það að kaupa slatta af mod-kubbum frá meginlandi Evrópu og gera þetta að viðskiptum.

Það gekk í einhvern tíma að ég var að breyta vél og vél, enginn alvöru viðskipti en þó fækkaði kubbunum smám saman. Einn góðan veðurdag fékk ég svo pöntun uppá einhverjar 10 vélar í einu. Saumaklúbbur fyrir norðan hafði ákveðið að fara að stela hugbúnaði með stæl. Dömurnar voru með geislabrennara og eina sem þurfti til að gerspilla börnunum var að lóða kubba í vélarnar. Auðvitað þurfti ég þá að panta mér meira af kubbum að utan.

Ég panta kubbana á netinu en þar sem ég er ekki með visakort varð ég að panta þá í póstkröfu. Ekkert mál... eða hvað? Ég fæ tilkynningu í pósti nokkrum dögum seinna um að ég get sótt pakka í pósthúsið í múlanum. Pósthúsið í Ármúla var þar sem Landsíminn er til húsa núna og var svona sambland þess versta sem pósturinn og tollurinn höfðu uppá að bjóða.

Í þessu pósthúsi var farið ca. svona að (eftir óljósu minni mínu):

 1. Þú ferð í óendanlega langa röð
 2. Þú bíður
 3. Þú afhendir gjaldkera miðann þinn
 4. Þú færð toll/innfluttningsskýrslu í hendurnar (sem gjaldkeri sótti á bakvið)
 5. Þú fyllir út sýrsluna (það var auðvitað aldrei laus stóll, hvað þá stóll nálægt borði)
 6. Þó ferð aftur í röðina
 7. Þú afhendir gjaldkera skýrsluna
 8. Þú bíður
 9. Þú bíður
 10. Þú bíður
 11. Það er orðið dimmt... þú átt það á hættu að verða étin(n) af Grue
 12. Gjaldkeri kallar nafn þitt og þú færð að borga 4x verðmæti varningsins í tollgjöld
 13. Þér er afhentur pakkinn þinn

Nema hvað þegar átti að koma að 12. lið, þar sem maður er loks farinn að þokast í átt að frelsi. Var ég ekki kallaður upp af gjaldkera. Ég var kallaður upp af tveimur brúnaþungum tollvörðum sem vildu aðeins fá að ræða við mig. Þeir höfðu með sér sundurtættar umbúðir pakkans míns, innihaldið, og pappírana, og þeir vildu fá að vita hvað þetta væri sem ég var að panta og hvað það það kostaði (væntanlega til þess að geta reiknað út tollgjöld).

Fulltrúar Tollvarðarembættis ríkisins sættu sig við útskýringuna "tölvuíhlutir", en voru ekki jafn ánægðir þegar ég segi við þá "ég veit ekki hvað þetta kostaði, ég lagði ekki nákvæma tölu á minnið". Þeir urðu reyndar alveg æfir þegar ég spurði þá hvort að þeir vissu ekki hvað þetta kostaði?

"Hvernig eigum við að vita það?" frussaði annar þeirra út úr sér.

"Stendur það ekki á póstkröfunni?" spyr ég í sakleysi mínu. "Hérna, undir liðnum price, er þetta ekki verðið þá? 24AU?"

"24AU!" hrópar frussarinn, "Hvað ætti það að vera? Hvað er þetta AU?".

Það var þá sem ég fattaði hvað ég var glaður að Gústi vinur minn var með mér. Enginn hefði trúað mér ef ég hefði ekki haft vitni að þessu. Það var eins og tíminn hökti þegar ég mælti "Getur það ekki verið gjaldmiðillinn í landinu sem pakkinn kemur frá? Austurríki?". Allt stoppaði í sekúntu eða tvær og svo var eins og allt hefði breyst - annar tollaranna segir: "þúverðurkallaðuruppafgjaldkera" og svo voru þeir á braut.

Kannski rifja ég upp fleiri sögur af samskiptum mínum við tollverði seinna... þetta er nóg af hryllingi í bili.

Published: 03. september 2003. Tagged: , , .