Borgar.net

— Go straight to page navigation

5. febrúar 2008

Vefverðlaunin og saga internetsins

Íslensku vefverðlaunin hafa verið veitt frá því árið 2000. Fyrst af Vefsýn og nú af SVEF, Samtökum vefiðnaðarins. Ég er áhugasamur um þessi verðlaun enda á ég bæði vinnu í vefum sem hafa hlotið tilnefningar, og svo hefur þessi vefur verið tilnefndur einu sinni1. Í ár kom ég að byggingu tveggja verðlaunavefa; vedur.is og visir.is. Ég get þó ekki sagt að ég eigi nema í litlum hluta afrakstursins enda þarf gjarnan margar hendur til þess að smíða jafn stóra og flókna vefi.


Það stingur mig dálítið að sjá vef vinna í einstaklingsflokki sem hefur viðmót sem er lítið breytt ókeypis sniðmát utan úr heimi. Mér finnst það hálfgerð óvirðing við þá sem svitna við að búa til þessa hluti hérna heima. Ég er þó viss um að RocketTheme eru vel að þessu komnir og dómnefndin hefur sínar ástæður.

Ég vil jafnframt óska EVE-online til hamingju með að vera með eina tilnefnda vefinn í ár sem ekki einkenndist af rúnnuðum hornum. Það hefur þurft hugrekki til þess að þora að taka þessa áhættu.


Mér hefur fundist í gegnum árin eins og það sé sífellt verið að tilnefna og verðlauna sömu vefina. Ég fór því að reyna að fletta því upp fyrir alvöru. Það reyndist mjög erfitt því að það hefur ekki verið almennilega haldið utan um gamalt efni frá þeim samtökum sem stóðu að verðlaununum (nema kannski á pappír í einhverri skúffu?). Ég hef því reynt að bæta úr þessu með smíði yfirlitskjals.

Nokkra merkilega hluti má sjá við nánari skoðun þessa skjals.

Endurtekningar

Besta hlutfall tilnefninga gegn vinningum hefur midi.is. Á síðustu tveimur árum hefur hann verið tilnefndur fjórum sinnum og unnið þrisvar. Hann þykir svo góður að hann hefur, með sama útlit og viðmót, unnið þann flokk tvö ár í röð. Sennilega heldur hann því svo bara áfram um ókomna tíð.

Glitnir og Landsbankinn eiga flestar tilnefningar í heldina. Landsbankinn á 7 og Glitnir 10 (hér tel ég með tilnefningar Íslandsbanka). Það er því nokkuð augljóst að þessi tvö fyrirtæki eru að vanda sig.

Þrátt fyrir að það þurfi bersýnilega að setja takmörk á tilnefningar vefja sem ekki fóru í loftið sama ár, finnst mér það bera vitnisburð um metnað að fá ítrekaðar tilnefningar, jafnvel þótt maður vinni ekki alltaf. Einn slíkur vefur er Baggalútur, sem hefur verið tilnefndur 5 sinnum, og unnið tvisvar. Baggalútsmenn hafa endurgert útlit og stokkað upp skipulagi nánast árvist. Það efast enginn um metnað þeirra.

Metamorphosis

Árið 2001 vantar á yfirlitið. Ég get ekkert fundið um að verðlaunin hafi yfirleitt verið haldin fyrir þetta ár. Líklega voru þau það ekki. En hvers vegna þá?

2000 - 2001 sprakk vefbólan á Íslandi líkt og annarstaðar í heiminum. Vefiðnaðurinn var því í sárum. Flest þau fyrirtæki sem höfðu verið starfandi fóru á hausinn og má sjá af uppflettingum þeirra léna sem voru tilnefnd 2000, að mörg þeirra reyndust ekki lífseig heldur.

2002 voru þó verðlaunin komin aftur en með smá áherslubreytingu. Flokkum hafði fækkað nánast um helming. Flokkunum Besti fjármálavefurinn, Besti fjölmiðla- og upplýsingavefurinn, og Besti fyrirtækisvefurinn hafði t.d. verið dembt saman.

Á þessum tíma héldu menn að "internetið væri framtíðin" og allir myndu nota það á hverjum degi. Þótt að það væri að hluta til rétt, þá sáu menn það kannski ekki fyrir að það þýddi einnig að vefurinn yrði hversdagslegt fyrirbæri og notendur vildu bara að hlutir virkuðu. Frumlegasti vefurinn hvarf því fyrir Besti einstaklingsvefurinn; enda eru allir nema einstaklingar hættir að vilja taka mikla áhættu með vefina sína eftir brotlendinguna.

Kannski er áhugaverðast að sjá þarna flokkinn Arðvænlegasti vefurinn. Árið 1999 ætluðu allir að græða eitthvað á internetinu2, oft án þess að vera með mjög gott plan. Það átti eftir að koma í ljós að fáar hugmyndir sem gengu ekki upp í venjulegri verslun gengu upp í eingöngu vefumhverfi. Vinningshafinn, nb.is, lifir þó góðu lífi í dag.

Það er kímilegt að sjá þarna flokkinn Besti leitarvefurinn nú þegar nýjar kynslóðir netnotenda þekkja ekki vefinn án Google. Fyrir átta árum var hins vegar ekkert Google. Það voru ótal leitarvélar og vefgáttir sem allar börðust um að vera upphafs- eða "mín" síða notenda. Þetta helst í hendur við vinninga strik.is, sem var valinn besti vefurinn 2000. Eitthvað er ennþá til af vefgáttunum, en strik.is meikaði það víst ekki.

Hönnun og útlit

Til þess að byrja með voru það annars vegar auglýsingastofur sem sáu um hönnun vefja, hins vegar vefsjoppur. Þegar á hefur liðið virðist sem að auglýsingastofurnar hafi ekki náð að fóta sig og kynslóð sérhæfðra vefhönnuða siti nú eftir (flestir hjá veffyrirtækjunum).

Í dag virðist mér landslagið vera þannig að það eru 4-5 vefhönnuðir sem eru allsráðandi í tilnefningunum. Þetta eru mennirnir sem eru ár eftir ár tilnefndir. Menn eins og Arnar Ólafsson, Hrafn Áki Hrafnsson, Jonathan Gerlach, Björn Kristinsson, og Magnús Bjarnason.

Kannski eru þeir einfaldlega réttu mennirnir á réttu stöðunum. Ég trúi því reyndar að þeir séu framúrskarandi hæfileikamenn sem, sérhæfðir vefhönnuðir, þekkja betur takmörk og styrkleika miðilsins. Þannig virðast mér vefhönnuðir því vera mun betri í að framleiða fallega vefi3 en klassískari hönnuðir. Þetta virkar kannski augljóst, en fer þó furðu oft framhjá fólki. Það má líka fara þá leið að frá vefhönnuð til þess að klára vefinn út frá efni frá auglýsingastofu.

Hvað er títt?

Eftir að bólan sprakk og vefurinn jafnaði sig, hafa verið uppi ögn raunhæfari hugmyndir um hvað þykir frambærilegt, eða boðlegt. Fyrirtæki veita frekar upplýsingar um vörur sínar, eða reyna að selja þær, stofnanir reyna að auðvelda fólki lífið með því að færa ýmsa umsóknar og samskiptaferla út á netið. Þetta hljómar kannski sjálfsagt, en þetta var það svo sannarlega ekki árið 1999.

Það sem hefur gerst er að vefurinn hefur færst úr hlutverki sínu tækniundur, yfir í að vera einfaldega viðauki við daglegt líf. Upplýsingaskylda hins opinbera er að teigjast út á vefinn. Ef maður hringir í skattinn þá fær maður því svarað að fara bara á heimasíðuna þeirra. "Fara í bankann" þýðir núna að nota netbankann. Það er því ekki óeðlilegt að Besti vefur í almannaþjónustu sé nýi flokkurinn í ár.

Framtíðarspáin mín er að eftir því sem netið verður hversdagslegra munu skilin milli online og offline verða óskýrari. Netið mun einnig byrja færast yfir í símtæki í auknum mæli. Spurningin er hvenær vefverðlaunin verða veitt fyrir það? Þau virðast jú gefa ágæta endurspeglun tíðarandans.


  1. borgar.undraland.com var tilnefndur í flokki einstaklingsvefja árið 2006.
  2. ...eða "lýðnetinu", eða "alnetinu", eins og sumir vildu hafa það þá.
  3. Athugið að vefhönnuður og grafískur hönnuður geta þýtt það sama, en það er ekki endilega 100% fylgni þar á milli.
Published: 5. febrúar 2008. Tagged: , , .