Kristileg kaldhæðni
Ég hef það í óspurðum fréttum að allar línur logi nú hjá lykilmeðlimum í félagi húmanista, Siðmennt. Svo virðist sem það hafi farið fyrir brjóstið á þrætugjörnum kristsmönnum að samtökin vilji láta banna litlu jólin í skólum landsins.
Fólkið hringir inn og rífst og skammast og ekkert fær það stöðvað. Ekki einu sinni þegar að meðlimir Siðmenntar útskýra að þetta sé hreinlega ekki rétt, og félagið sé, hvorki á móti jólum í skólum, né hafi það völd til þess að hafa neitt um leikskólamálið að segja.
Ég veit ekki með Þorgerði Katrínu, hún er eflaust bara illa upplýst. Sennilega eru heimildir hennar ekki betri en t.d. 24 stundir. Sem segir kannski sitt um hæstvirtan fyrsta þingmann suðvesturkjördæmis.
Mig langar þó mest að vita hvað vakir fyrir kirkjunar mönnum. Vita þeir að þegar þeir fara með svona ósannindi í fjölmiðlum að allt tryllist og Siðmennt fær holskeflu af óþarflega dónalegum símtölum? Í því tilfelli eru þeir illa innrættir.
Hinn möguleikinn er að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Þeir séu einfaldlega ekki að hugsa um neinn nema sjálfan sig. Í því tilfelli eru þeir, tja... þið segið mér? Fyrirmynd kristinna manna?
Er það ekki ögn kaldhæðnislegt að þeir menn sem heimta að fá að kenna börnum okkar siðferði séu annað hvort illa innrættir lygarar, eða illa upplýstir sjálfshagsmunaseggir?
Hvernig var hún aftur, þessi gullna regla?