Kjördagur
Ég er búinn að vera að sveiflast fram og til baka eins og venjulega. Það er erfitt að vera pólitískt viðrini. Ég hef þó loksins gert upp hug minn og held að ég sé, svei mér þá, að fara að kjósa af einhverjum votti að sannfæringu í fyrsta sinn á æfi minni.
Góð heilræði til óákveðinna kjósenda er að finna á Bloggi dauðans - svona ef þið eruð sjálf eitthvað í vafa. Þið þurfið ekkert að vera á sama stað í skoðunum ykkar og ÁJ, ráðin eru góð engu að síður.
Mér til mikillar skemmtunar fékk Sarah sent hingað heim áróðursbréf. Það er merkilegt fyrir þær sakir að bréfið var stílað á hana en þar sem hún er ekki íslenskur ríkisborgari er hún heldur ekki á kjörskrá. Gáfulegt það.
Planið er annars að skella sér í þessa asnalegu mótmælagöngu og fara svo og kjósa. Það truflar mig ekkert lítið að þessi mótmælaganga sé einnig fjölskylduskemmtun. Mótmæli og skemmtiatriði fara ekki saman. Það er of auðvelt að segja að fólkið sé komið í bæinn til þess að sjá skemmtiatriðin.