Borgar.net

— Go straight to page navigation

29. ágúst 2018

Lítið eitt um bólusetningar barna

Nú er þeirri hugmynd flaggað í umræðunni á Íslandi að bólusetning við einhverju grunn setti af smitsjúkdómum sé gert að skilyrði fyrir að fá leikskólavist fyrir barn hjá sveitarfélögum.

Þetta kemur upp í kjölfar skýrslu sóttvarnarlæknis í sumar og má spyrja sig hvort það sé ástæða til þess að grípa frekar inn í en þær aðgerðir sóttvarnarlæknis að skerpa á því eftirliti og eftirfylgni sem hann taldi ábótavant. Fréttavefur RÚV segir að:

Í skýrslunni kemur fram að það sé fremur sjaldgæft að bólusetningum sé hafnað hér á landi. Miklu algengara sé að skoðun í ung- og smábarnavernd falli niður af óljósum orsökum. Unnið hafi verið að því undanfarið ár að auðvelda heilsugæslustöðvum að fylgjast með stöðu mála hjá þeim börnum sem eru skráð á stöðina og gefi það tækifæri til að kalla inn börn sem ekki hafi mætt í skoðun. Frekari úrbætur séu í undirbúningi til að auðvelda skráningu og fleira.

Vandamálið við svona inntökuskilyrði er að þetta kostar bæði eftirlit með þessu (sumsé starfsfólk) og býr að auki til leiðinlegar hliðarverkanir svo sem að þau börn sem geta ekki þegið bólusetningar vegna ofnæmis þyrftu að fara að skila inn vottorði án þess að þau séu beint vandamálið. Svo væru óbólusettu börnin kannski áfram óbólusett en bara ekki á leikskóla.

Hvernig væri að snúa hvatanum við? Að í stað þess að gera óbólusett börn útlæg úr leikskólum, væri það kannski hugmynd að bjóða uppá bólusetningarnar í leikskólunum? Svona eins og hvernig flensubólusetningar eru oft í boði í stærri fyrirtækjum.

Það er þannig þegar að foreldri er með barn á leikskóla þarf það mjög oft að vera að setja nafnið sitt á einhvern lista; t.d. krossa við hvort maður ætli með í sveitaferðina eða hvaða daga barnið er í fríi yfir jólin. Þetta yrði einfaldlega eitt af því.

“Hjúkrunarfræðingur frá Barnaspítala Hringsins kemur í heimsókn, við spöllum um mikilvægi þess að þvo sér um hendurnar, og boðið er upp á ókeypis bólusetningu við hlaupabólu og hettusótt fyrir þá sem vilja.”

Krakkarnir fá límmiða, fræðslu, og ónæmi við banvænum eða hvimleiðum sjúkdómum. Hjúkrunarfræðingar fá vissulega aukaverkefni, en hvert foreldri þarf hins vegar ekki að fara sér ferð til þess annað hvort að ganga frá bólusetningunni, eða redda vottorðum.

Svo mætti líka hugsa sér að fengið væri almennt samþykki við innritun eins og þarf nú þegar t.d. við að myndir séu teknar af barninu, eða það fái að fara í ferðir með skólanum. Það má alveg segja nei, en fæstir sjá sennilega ástæðu til þess að gera það þegar þeir yfirleitt eru spurðir.

Published: 29. ágúst 2018. Tagged: .