Borgar.net

— Go straight to page navigation

28. desember 2007

Rafræn auðkenning og barnaníð

Ég hef vitað í nokkurn tíma, eins og margir aðrir í mínum bransa, að rafræn skilríki eru við það að komast í almenningshendur. Bæði stjórnsýslan og bankarnir fá vart vatni haldið yfir því að þetta komist á sem fyrst. Reyndar eru einhver mál óleyst enn, en svo sem ekkert sem stöðvar þetta.

Ég er reyndar einn þeirra sem halda fram ágæti rafrænna skilríkja. Ég tel að þetta færi okkur margar nýjar leiðir sem áður voru ekki færar. Einkum þegar kemur að hlutum eins og viðskiptum og stjórnkerfi. Ég er þó frekar efins um ágæti þess að auðkenna alla alltaf.

Auðkenni eru greinilega að fara af stað í að kynna málið. Ég er þó hvumsa yfir frétt um málið á Vísi.

Nokkrir dómar hafa fallið hér á landi þar sem barnaníðingar hafa notað spjallrásir til að komast í samskipti við börn. Rafræn skilríki geta í framtíðinni komið í veg fyrir þetta.

Ég er tilbúinn til þess að trúa því að þarna sé á ferð fréttamaður að "hjálpa til" við að matreiða þetta ofan í almenning. Sennilega er þetta þó arfaslakt praktískt dæmi sem talsmaður auðkennis er að taka fyrir í viðtali. Það skiptir eiginlega engu hvort er.

Mér verður hálf óglatt við tilhugsunina að barnaníðingagrílan sé notuð til þess að smala fólki út í þetta og þagga niður í mögulegum persónuverndar- og öryggismálaröddum? Þeir sem auðkenna sig alltaf ekki á netinu hljóta jú að vera barnaníðingar, hvað annað hafa þeir að fela?

Ég ætla að vera fyrstur til þess að segja opinberlega að rafræn skilríki og rafræn auðkenning eru engin töfralausn gegn barnaníð. Fræðsla og forvarnir eru líklegri til þess að hafa áhrif. Barnaníðingar munu finna sér aðrar leiðir.

Hvernig væri að við horfðum frekar á þá jákvæðu, og raunhæfu, möguleika sem rafræn skilríki bjóða upp á. Til dæmis mætti nefna að við losnum við auðkennislyklakippurnar sem allir hata, eða - hey! - þá staðreynd að rafræn viðskipti og/eða samskipti við stofnanir munu verða háð auðkenningum og að þeir sem ekki ætla sér að taka upp rafræn skilríki verða einfaldlega eftir úti í kuldanum.

Published: 28. desember 2007. Tagged: .