Borgar.net

— Go straight to page navigation

9. nóvember 2007

Hvaðan koma fordómar?

Í Morgunblaðinu í dag er pistill eftir unga konu, Unni Maríu Birgisdóttur, sem er í áfalli eftir að ráðist var hrottalega á mann hennar um helgina. Hún er eðlilega hrærð enda vægast sagt óþægilegt að verða fyrir, eða vitni að, jafn fólskulegum og tilefnislausum ofbeldisverkum.

Eins og eðlilegt er undir svona kringumstæðum spyr hún sig spurninga, og reynir að skilja hvað það er sem veldur því að svona lagað komi fyrir. En það er svo merkilegt, að sama hvað maður hugsar mikið - þá er ekkert gefið að maður komist að réttri niðurstöðu. Og það hefur hún heldur betur ekki gert.

Ég get vel skilið að hún sé reið, og sár, en eflaust má byrja á því að draga árásarmennina til saka sem einstaklinga áður en við förum að æsa upp kynþáttahatur gegn saklausum Pólverjum (eða fólki frá löndunum þar í kring) hér á landi.

Uppistaðan í greininni er lýsing fórnarlambsins á óhugnarlegum atburðum kvöldsis, en svo skipir um tón í niðurlaginu:

Fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna spretta m.a. af atvikum sem þessu. Maðurinn minn telur að þessir menn hafi verið frá Póllandi eða löndunum þar í kring. Hann metur það út frá tungumálinu sem þeir töluðu, [...], og útliti þeirra. Árásarmennirnir eru á bilinu 25-30 ára og ganga lausir og ættu því allir menn að hafa varann á. [...] Þetta hefði getað komið fyrir hvern sem er. Næst getur það verið þú.

Fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna spretta vitaskuld alls ekki af atvikum sem þessu. Það er þvættingur. Fordómarnir spretta af rökvillu eða rangri rökleiðslu þeirra sem lent hafa í óþægilegum aðstæðum. Grein Unnar er skólabókardæmi um þetta. Blaðaskrifin eru ekki til neins fallin, né ætluð, nema æsa upp kynþáttahatur í líkt þenkjandi eða áhrifagjörnum lesendum.

Ég leyfi mér að fullyrða að það heyri til undantekninga að Pólverjar gangi í skrokk á fólki að handahófi hérlendis. Ef einhverjir þeirra gera það, þá eru þeir einstaklingar mjög lítil hluti þeirra sem slíkt gera. Flestir ofbeldismenn á Íslandi munu vera Íslendingar.

Hversu margir innflytjendur þurfa að þola ofbeldi af hálfu Íslendinga sakir uppruna síns? Það er kannski ekki fljótt á litið jafn tilefnislaust, a.m.k. ætti fórnarlamb af erlendu blóði auðvelt með að geta sér til um tilefnið.

Fordómar fæðast í vanþekkingu og hræðslu. Þeir stugga fólki í sundur frekar en að draga það saman. Hér er það einmitt samvinna við samfélag innflytjenda sem gerir það auðveldara að draga þá einstaklinga sem ábyrgir eru fyrir glæpnum til saka, líkt og samvinna við nýbúa tryggir þeim stað í okkar samfélagi þar sem einstaklingar mynda ekki hvöt til slíkra verka.

Það er móðgandi fyrir nýbúa að láta eins og þeir vilji eitthvað annað en það fjölskylduvæna samfélag sem við höfum búið í til þessa. Við höfum þá ekki alla að sök fyrir það sem einstaklingur gerir, frekar en við dæmum allar aðsendar greinar í morgunblaðinu vegna einnar misheppnaðrar.

Published: 9. nóvember 2007. Tagged: .