Um nettenginguna mína
Ég er búinn að vera í vandræðum með nettenginuna mína heima og þurfti að gramsa aðeins í beininum mínum. Eitt af því sem er að koma fyrir mig er að þegar ég bið um netsíður virðist ekki alltaf koma svar frá nafnaþjónum Vodafone.
Ennfremur er frekar óþægilegt að í honum eru undarleg göt. Þó þeir svari, vilja Vodafone t.d. stundum ekkert kannast við að google.is sé til. Þetta er vægast sagt takmarkandi. Ég hélt upprunalega að eitthvað væri að samskiptum mínum við beininn, eða að tengingin væri eitthvað biluð. Vodafone gáfu þau svör að "ekkert væri að".
Svo kom í ljós að fyrirspurn beint á nafnaþjóna Vodafone skilaði svarinu "veit ekki". Nafnaþjónar Símans svöruðu þessu hins vegar um hæl.
Nú myndi ég spyrja hvort einhver veit hvað er eiginlega í gangi hjá Vodafone, en ég efast sterklega um að þeir viti það sjálfir (af fenginni reynslu minni af samskiptum við þá). Tími til að skipta um þjónustufyrirtæki?
Undanfarið hafa nokkrir þeir notendur sem hafa verið að nota Undralandið sem póstþjóninn sinn ekki getað sent póst lengur. Ég hef um nokkurt skeið haft grun um að þjónustuaðilar nettenginga séu að loka fyrir það port sem póstsendingar fara um í því skyni að reyna að sporna við ruslpósti. Það er svosem ekkert nema gott um það að segja.
Ég komst að því þegar ég var að róta í beinum mínum að þetta er gert þar. Beinirinn kemur forstilltur frá Vodafone með þá reglu að henda allri traffík á porti 25 á leið út.
Þetta eru kannski ekki nytsamlegustu upplýsingar í heimi, en þetta er áhugaverð þróun.