Borgar.net

— Go straight to page navigation

11. desember 2005

Öryrkjun á Íslandi - Öryrkjar

Ég man vel hversu erfitt mér þótti að játa það við fólk að ég væri öryrki. Mér þykir ennþá óþægilegt að segja frá því að ég hafi verið örorkubótaþegi. Ég ætla þó að koma út úr skápnum núna í von um einhver geri sér grein fyrir því hversu heimskulegar hugmyndir almennings um öryrkja eru.

Það sem ógeðfeldara var, það er þegar fólk svaraði manni í þeim dúr að það hlyti nú að vera fínt að vera svona heima og fá bætur. Ekki einu sinni þrítugur og búinn að koma ár sinni vel fyrir borð hjá TR.

Ég vil trúa því að þetta hafi verið illa útfært kurteisishjal. Ég veit ekki í hvaða meðalmennskuheimi fólk býr, en það gerist enginn heilvita maður öryrki viljandi. Hérna eru nokkrar staðreyndir um öryrkja sem þið vissuð kannski ekki:

  1. Örykjum líður illa. Þeir eru þunglyndir og í tilvistarkreppu yfir örlögum sínum. Engum finnst þægilegt að vera ósjálfbjarga og uppá ölmusu kominn.

  2. Öryrkjar hafa það skítt. Bæturnar eru grátlega lágar og það er mjög dýrt að búa hérna á Fróni.

  3. Öryrkjar hafa oft örorku sem sést ekki á þeim. Þeir virka oft fullkomlega eðlilegir og geta unnið þig í badminton, en svo er ekkert víst að viðkomandi komist framúr eftir tvo daga. Hvaða vinnuveitandi vill hafa þannig starfsmann?

Ég þurfti á þessum stutta tíma sem ég var veikur að berjast á hæl og hnakka til þess að fá kerfið til þess að viðurkenna bótarétt minn. Það gekk aldrei almennilega. Reyndar skal ég viðurkenna að ég var svolítið snúið tilfelli.

Ferli mínum sem öryrkja lauk þegar ég fékk loksins inni á Reykjalundi. Þar vinna sætar hjúkrunarkonur og hressir iðjuþjálfar sem komu mér fljótlega á lappir aftur. Sem betur fer, því að líf öryrkjans var ekki notalegt.

Það er ekki langt síðan ég kláraði endurhæfingu. Ég var að sjálfsögðu að vinna á þessum tíma. Frílans af því að þá gat ég hagað vinnunni í kringum veikindin. En á meðan ég var á Reykjalundi var ég tekjulaus. Ég átti að fá endurhæfingarlífeyri á meðan ég var þar inni en það dróst. Sem betur fer er mötuneyti þarna svo ég fékk þó að borða.

Eftir að ég komst á fætur fór ég svo að reyna að vinna. Það finnst engum það óeðlilegt, eða hvað? Nema hvað vegna þess að ég hafði svo miklar tekjur af því, heilar 300 þúsund yfir 6 mánuði, hefur Tryggingastofnun ríkisins gert mér að gjöra svo vel að endurgreiða þeim endurhæfingarlífeyrinn.

Það getur vel verið að þessi öryrki sem vinur frænda þíns þekkir hafi komist í álnir vegna þess að hann var svo latur að hann nennti ekki neinu nema gríðarlegu vinnunni sem er að komast í gegnum örorkumat TR. En ég, ég trúi því ekki.


Meira af því sama: Öryrkjun á Íslandi - Sjúkratrygginar.

Published: 11. desember 2005. Tagged: .