Tölvusölumaðurinn
"Hlustaðu á þetta" sagði sölumaðurinn við okkur mömmu þar sem við stóðum öll fyrir framan fartölvuútstillinguna. Svo hækkaði hann í tölvunni og spilaði fyrir okkur dæmigert "úmp-tzz-úmp-tzz" ravelag. Ég komst ekki hjá því að setja upp svip.
"Sko," sagði sölumaðurinn hróðugur og benti á mig, "meira að segja hann er hissa." Þar með hóf hann þaulæfða ræðu um hvernig svona frábær hljómgæði hafi bara ekki verið möguleg fyrr en nú og þessi tiltekna tölva væri þess vegna sú eina sem mögulega kæmi til greina fyrir nokkurn mann að kaupa.
Sannleikurinn var að svipurinn sem ég setti upp var þvingaður "verð að passa mig á að fara ekki að hlægja beint í andlitið á honum"-svipur. Hljómgæðin voru auðvitað í sama gæðaflokki og allir fartölvuhátalarar bjóða uppá, þ.e.a.s. svipuð og úr leigubílatalstöð.
Það versta sem sölumenn geta gert sér í návist minni er að besservissast um græjurnar sem þeir eru að reyna að selja mér. Það er ekkert eins pínlegt og að þjást í gegnum "bíður uppá svo marga möguleika"-ræðu um hluti sem ég hef mun meira vit á en þeir.
Ég hefði svo sem alveg geta sagt við sölumanninn að: Ég væri búinn að vera forritandi síðan ég var 11 ára; að ég væri búinn að taka sundur, og setja saman, og lóða í fleiri tegundir raftækja en hann gæti talið upp; og að ég hefði nægilega hljóðfræðikunnáttu til að gera mér fullkomlega grein fyrir að ástæðan fyrir því að ég væri yfirleitt að heyra bassa í tónlistinni, sem hann hafði svo kúnstuglega valið til að kvelja mig með, væri vegna þess að hún er hljóðblönduð með allar tíðnir undir 1khz þjappaðar upp í top.
Ég leyfði honum bara að rausa þar sem ég stóð glottandi yfir þessu öllu. Hann átti hvort sem er eftir að toppa þetta: Þegar hann sýndi okkur DVD möguleikana með mynd með "hjartaknúsaranum sem allir elska", Sean Claude Van-Damme. Svo predikaði hann ágæti DVD eins og við hefðum aldrei séð tölvu spila DVD mynd áður... Alveg þangað til að hann áttaði sig á því að skjárinn fyrir aftan hann var að sýna óþægilega lostafulla kynlífssenu.