Borgar.net

— Go straight to page navigation

12. nóvember 2003

Sænska leiðin

Allir eru að tala um sænsku leiðina gegn vændi. Svo best sem ég veit kemur umræðan í kjölfar stefnublaðamannafundar VG.

Frumvarp um bann við kaupum á kynlífsþjónustu
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hyggst leggja fram á komandi þingi frumvarp til laga um bann við kaupum á kynlífsþjónustu. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, verður fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Þetta er tekið af vef mbl.is og var sent inn á póstlista sem ég er á þar sem vinahópur ræðir málefni líðandi stundar. Ég varð fyrstur til svara enda er þetta akkúrat svona málefni sem fær mig til að hækka róminn. Ég lendi nefnilega í átökum við sjálfan mig. Feminískar og pólitískar skoðanir mínar stuðast á þessu málefni.

Það er best ég byrji á því að taka fram að ég er þeirrar skoðunar að vændi sé rangt. Ég get ekkert fært rök fyrir því. Mér finnst bara eitthvað alveg fullkomlega óeðlilegt við það athæfi að borga fyrir eða taka við greiðslu fyrir kynlíf.

Það sem er að trufla mig eru satt að segja alls ekki réttlætingarnar fyrir lögunum með/eða á móti. Það stendur í mér spurningin um af hverju við erum yfirleitt að þrasa um lög sem við komum ekki til með að framfylgja og hafa engin raunveruleg áhrif á samfélagið eða hvort vændi sé stundað hér yfir höfuð. Við höfum engin tök á að framfylgja þessu. Af hverju viljum við eitthvað vera að fikta í lögum sem eru aldrei notuð? Erum við að fara að opna Vændisdeild Lögreglunar? Varla, ekki á meðan Fíkniefnadeildin starfar í skókassa.

Ég er hræddur um að þeir sem hafa hæst um þetta allt sé fólk sem heldur að það sé að leysa einhver mál. Að vandamálið verði úr sögunni þegar ný lög eru sett. Ætlar Kolbrún Halldórsdóttir að klappa sér á bakið eftir að hún breytir lögunum og þakka sjálfri sér fyrir að hafa leyst vandamálið?

Er enginn að hugsa um framhaldið hérna nema ég? Er ég einn hérna að spyrja: Og hvað svo? Hvað svo þegar við erum búin að banna kaup á vændi? Hvað ætlum við þá að gera til að uppræta vandamálið?

Published: 12. nóvember 2003. Tagged: , .