Strætóþjófurinn
Sem ég skrifa þetta sit ég í strætó á leiðinni í bæinn. Ég er að vinna á fartölvuna. Við hliðina á mér hinum megin í vagninum er kona í ósmekklegum fatnaði að stela bók sem hengd hefur verið með snúru á sætið fyrir framan hana. Hún reynir að rífa snúruna úr bókinni svo engin sjái, en þetta er bara ekki sérstaklega lymskulegt hjá henni (þótt hún sé að reyna).
Förum aðeins yfir þetta aftur. Einhver ókunnug kona er að þjófgera sig, með því að stela kilju úr strætisvagni og ég er bara að horfa á hana, alveg heillaður af viðbjóði.
Ég get ekki að því gert en ég fyllist ógeði og fyrirlitningu þegar ég horfi á hana sitja þarna og smella með tyggjóinu sínu. Þetta eru tilfinningar sem hefðu aldrei annars komið upp.
Hún fiktar í plasthringnum sem áður hélt bókinni fastri við sætið. Eins og eitthvað sé að angra hana. Bókin var komin ofaní tösku hjá Spönginni í Grafarvogi. Við erum að keyra yfir Elliðaárnar. Hún hóstar í sífellu og á erfitt með að vera kyrr. Skrítið?
Það heillar mig hvað þessi manneskja, sem annars hefði bara verið enn eitt kjötstykkið í strætó, hefur nú sett sig í tímabundið áberandi hlutverk í lífi mínu. Ég hefði aldrei einu sinni velt henni fyrir mér en nú er mér fullkomlega ljóst hvað ég fyrirlít hana mikið fyrir að vera drasl manneskja. Ég gæti ekki borið minni virðingu fyrir henni þó henni hefði verið ælt í þennan heim.
Hún fer á Grensásvegi, líklega búin að velkjast í sjálfsmeðvitund vegna gjörða sinna alla ferðina. Mér finnst samt eins og hún hafi gefið mér eitthvað, einhvers konar meðvitund - eða - mögulega stal ég henni bara?