Borgar.net

— Go straight to page navigation

02. desember 2003

Gleraugnakaupin

Mér datt í hug atvikið þegar fyrrverandi kærasta mín fór í að kaupa sér ný gleraugu. Hana langaði að velja eitthvað svolítið töff en umfram allt smekklegt. Eitthvað sem átti mögulega að vera framan í andlitinu á henni í mörg ár þurfti að velja vandlega svo við tókum okkur marga daga í að heimsækja næstum allar gleraugnabúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Ein búð á Laugarveginum sem við álpuðumst inn í var með það sem mætti kalla "markhópinn eldri konur"” en ég mundi sennilega í daglegu tali kalla hana “búð fyrir smekklausar gamlar kerlingar.” Sem sagt; dýr og smekklaus gleraugu í hönnuð af íhaldsömum hönnuðum fyrir íhaldsama, en þó glysgjarna viðskiptavini.

Eftir að kærastan hafði mátað ótal gleraugu og snúið sér að mér í hvert skipti og fengið svona “naah, varla” grettu var sölukonan alveg að missa þolinmæðina á þessum ömurlega kúgandi eiginmanni sem leyfði konunni sinni aldrei að vera í bílstjórasætinu. Það var þá sem hún segir við mig “"þú verður nú að leyfa henni að vera smart, þú vilt nú sjálfur vera svoldið svona töff týpa."

Fyrrverandi stýrði okkur snarlega út, grenjandi úr hlátri; ég yfir mig hneykslaður á að greyi konunni dytti í hug að “smart” gleraugu fyndust í búðinni. Ef ég man rétt þá fundum við fullt af smekklegum gleraugum í búð hinum megin við götuna.

Hvernig hún túlkaði aðstæðurnar þannig að ég væri svona eiginmaðurinn sem stjórnaði konunni byggist eflaust bæði á áralangri reynslu við afgreiðslu í þessari búð, ásamt alvarlega skertu fegurðarmati. Ég held samt að ég hafi aldrei fyrr né síðar séð neinn mistúlka raunveruleikan jafn algjörlega. Þetta var alveg eins og skrifað af nóbelskáldinu.

Published: 02. desember 2003. Tagged: , .